Make your own free website on Tripod.com

Guttormur Vigfússon - æviágrip

Þórhallur Guttormsson tók saman

Um miðjan ágúst 1992 heiðra niðjar Guttorms Vigfússonar í Stöð minningu hans. Það er tilhlýðilegt að niðjatali hins merka klerks fylgi æviágrip hans og sögð séu deili á uppruna hans.

Guttormur fæddist 23. apríl 1845 í Hvammi á Völlum á Fljótsdalshéraði. Hví fæðingu hans bar að höndum á þeim bæ er ekki vitað en Hvammur var hjáleiga frá Vallanesi um langan aldur og um þessar mundir var Vigfús faðir hans aðstoðarprestur föður síns í Vallanesi. Vigfús varð síðar prestur í Ási í Fellum. Hann var sonur Guttorms, rektors Hólavallaskóla í Reykjavík, kennara í Bessastaðaskóla, prests á Hólmum í Reyðarfirði og í Vallanesi og prófasts í Suður - Múlasýslu.

Foreldrar Guttorms í Vallanesi voru Páll Magnússon, prestur á Valþjófstað, og Sigríður Hjörleifsdóttir, prests á Valþjófsstað, Þórðarsonar. Hjörleifur var kominn af Einari, skáldi og presti í Heydölum, Sigurðssyni.

Móðir Guttorms í Stöð var Björg, fyrri kona Vigfúsar í Ási, Stefánsdóttir, prests á Valþjófsstað, Árnasonar, prests í Kirkjubæ í Hróarstungu, Þorsteinssonar. Kona Stefáns Árnasonar og móðir Bjargar var Björg Pétursdóttir, sýslumanns í Múlaþingi, Þorsteinssonar. Síðari kona Vigfúsar í Ási var Guðríður Jónsdóttir frá Gilsá í Breiðdal. Sonur þeirra var Björgvin, sýslumaður á Efrahvoli.

Systir Bjargar, Þórunn, var móðir Páls Benediktssonar á Gilsá í Breiðdal. Var mikil vinátta með þeim frændum, Guttormi í Stöð og Páli á Gilsá. Vigfús Guttormsson í Ási og Björg Stefánsdóttir áttu tvo sonu sem upp komust, Guttorm prest í Stöð og Pál, cand. phil., bónda og ritstjóra á Hallormsstað.

Enn skal þess getið að Guttormur Pálsson í Vallanesi, afi Guttorms í Stöð, átti Margrétu Vigfúsdóttur, prests á Valþjófsstað (á undan Stefáni Árnasyni) Ormssonar. Af Vigfúsi Ormssyni eru Þormarar komnir.

Það eru því engar ýkjur þótt sagt sé að í æðum okkar niðja Guttorms í Stöð renni lítt mengað prestablóð þótt það kunni að þynnast með tíð og tíma.

Guttormur Vigfússon ái okkar varð stúdent úr Lærða skólanum 1869 með annarri einkunn en bætti þar um með því að brautskrást úr Prestaskólanum tveimur árum síðar með fyrstu einkunn. Hann vígðist til Rípur í Hegranesi 1872 en eftir tveggja ára setu þar, 1874, varð hann aðstoðarprestur tengdaföður síns, Jóns Austmanns, í Saurbæ í Eyjafirði.

Aðstoðarprestsstarfið var einvörðungu biðtími þess að hann fengi að þjóna veigamiklu prestakalli, sjálfs sín herra, og árið 1876 var honum veitt Svalbarð í Þistilfirði og síðan Fjallaþing í eitt ár, 1881. Það var nýtt prestakall með Víðihóls- og Möðrudalssóknum og lá hæst yfir sjó allra prestakalla hér á landi. Auk þess þjónaði hann Presthólaprestakalli á vestanverðri Melrakkasléttu sem aukaprestur árin 1876 og 1883. Guttormur var settur prófastur í Norður-Þingeyjarsýslu 1883 og skipaður í embættið 1885.

Óhætt er að fullyrða að ár hans í Norður-Þingeyjarsýslu hafi mjög reynt á þolrifin og veist honum erfið enda fór saman víðlent prestakall og eindæma illt árferði. Dagbækur hans eru til vitnis um það.

Jón Austmann, tengdafaðir Guttorms, hafði orðið prestur í Stöð í Söðvarfirði árið 1881. Hann lést 1887 og þá bauðst tengdasyninum tækifæri til að hyggja að breytingum, yfirgefa harðbýla sveit og sækja um prestakall á syðri og hlýlegri slóðum. Guttormur varð prestur í Stöð 1888 og var nú kominn í hinsta stað prestsskapar síns. Hann varð síðasti prestur í Stöð og þegar hann lét af starfi 1925 hafði hann 52 embættisár að baki, flest allra þeirra sem þann stað sátu og þótt víðara væri leitað. Guttormur dó 25. júní 1937 og hvílir í kirkjugarðinum í Stöð.