Make your own free website on Tripod.com

 

 

 

Formáli:

Með riti þessu liggur nú fyrir niðjatal séra Guttorms Vigfússonar prests í Stöð í Stöðvarfirði og eiginkvenna hans, þeirra Málmfríðar Önnu Jónsdóttur og Friðriku Þórhildar Sigurðardóttur. Rit þetta hefur verið tekið saman í tilefni fyrsta niðjamóts, sem haldið er að Hallormsstað 14.-16. ágúst, 1992. Niðjatalið er eins og mörg önnur hliðstæð rit, upptalning á nöfnum afkomenda og maka þeirra, með upplýsingum um ættartengsl, fæðinga og dánardaga. Í þetta niðjatal hafa einnig eftir föngum verið teknar saman upplýsingar um heimilisföng og starfsheiti, samkvæmt ákvörðun undirbúningsnefndar niðjamóts. Talið var að þessar upplýsingar mundu lífga upp á upptalninguna og auka gildi ritsins. Ekki tókst þó að fá fram þessar upplýsingar nema fyrir hluta afkomendanna, eins og ritið ber með sér.

Að samantekt ritsins stóð undirbúningsnefnd niðjamótsins, en hana skipuðu þau Ásdís Skúladóttir. Egill B. Hreinsson, Guðrún Jörgensen, Helga Karlsdóttir og Þorsteinn Þórhallsson. Egill B. Hreinsson sá um innslátt og tölvuuppsetningu ritsins (MS Word 4.0) en aðrir nefndarmenn auk fleiri aðila unnu við söfnun gagna, og yfirlestur. Undirritaður vill þakka öllum sem hönd lögðu á plóginn svo að ritið gæti séð dagsins ljós í tíma. Jafnfram skal tekið fram að óhjákvæmilega má búast við ýmsum villum í riti sem þessu, þótt eftir megni hafi verið reynt að leita að og útrýma þeim. Um leið og beðist er velvirðingar ý öllum villum sem kunna að koma í ljós, skal getið að þær eru alfarið á ábyrgð ritnefndar. Þrátt fyrir slíkt er það von nefndarinnar að ritið geti orðið bæði niðjum séra Guttorms og öðrum áhugamönnum um ættfræði til fróðleiks og ánægju.

Reykjavík í júli, 1992

f.h. undirbúningsnefndar

 

Egill B. Hreinsson